Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæpum 9,2 milljörðum í janúar samanborið við 10,4 milljarða í janúar 2015, samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar.

Samdrátt í aflaverðmæti má að mestu rekja til uppsjávarafla en verðmæti hans nam tæpum 1,2 milljörðum í janúar samanborið við tæpa 2,5 milljarða í janúar 2015. Aflaverðmæti botnfisktegunda nam rúmum 7,4 milljörðum í janúar og var nær óbreytt samanborið við fyrra ár. Verðmæti flatfiskaflans nam tæpum 440 milljónum i janúar sem er 18,3% aukning samanborið við janúar 2015. Verðmæti skel- og krabbadýra nam rúmum 100 milljónum í janúar sem er samdráttur um 6,9% miðað við janúar 2015.

Aflaverðmæti á 12 mánaða tímabili frá febrúar 2015 til janúar 2016 jókst um 8.5% miðað við sama tímabil ári fyrr. Á þessu tímabili varð aukning í verðmæti botnfiskafla um 11,3%, virði flatfisks jókst um 40,1% en virði uppsjávarafla dróst saman um 5%.