Stjórnvöld á Filippseyjum hafa aflétt banni á starfsemi Uber í landinu sem sett var á fyrr í mánuðinum eins og Viðskipablaðið greindi frá. Bannið kom í kjölfarið því að rannsókn stjórnvalda leiddi í ljós að fjöldi bílstjóra væru að bjóða upp á leigubílaþjónustu með Uber, án þess að hafa til þess tilskylin leyfi.

Bannið var sett á þann 14. ágúst síðastliðinn og átti að standa í mánuð. Banninu var aflétt eftir að Uber greiddi 3,72 milljónir dollara í sekt og 5,87 milljónir í fjárhagsaðstoð til þeirra bílstjóra sem störfðu löglega. Stjórnvöld á Filippseyjum höfðu lagt það til að Uber myndi bæta löglegum bílstjórum upp tjónið sem þeir urðu fyrir vegna bannsins.

Samkvæmt frétt Reuters um málið starfa um 67.000 bílstjórar undir merkjum Uber á Filipseyjum. Skortur á skilvirkum og áreiðanlegum samgöngum í landinu hefur orðið til þess að Uber hefur notið mikilla vinsælda meðal íbúa Filippseyja.

Árið 2017 hefur verið erfitt fyrir forsvarsmenn Uber. Fyrirtækið hefur átt í útistöðum við stjórnvöld í þónokkrum löndum. Þá kom einnig upp mál um kynferðislega áreitni í höfuðstöðvum Uber auk þess sem fjallað hefur verið um slæma vinnustaðarmenningu innan fyrirtækisins.

Varð það meðal annars til þess að Travis Kalanick stofnandi Uber lét af störfum í júní síðstliðnum. Í gær var svo greint frá því að Dara Khosrowshah, forstjóra bókunarsíðunnar Expedia hafi verið boðið að taka við starfi forstjóra. Er talið að ráðning Khosrowshahi muni kosta fyrirtækið allt að 200 milljón dollara .