Bandaríkin hafa bundið enda á vopnasölubann til Víetnam og er um sögulegt skref að ræða. Bandaríkin og Víetnam áttu í stríði í 20 ár, frá 1955 til 1975, og hefur samband þjóðanna ávallt verið viðkvæmt frá þeim tíma þó svo það hafi farið batnandi undanfarin ár. Talið er að ákvörðun Bandaríkjanna taki mið af áhyggjum beggja þjóða af vaxandi hernaðarumsvifum Kína.

Fréttirnar voru tilkynntar á meðan heimsókn Barack Obama Bandaríkjaforseta í Hanoi, höfuðborg Víetnam, stendur. Víetnamar tóku Obama fagnandi og sögðu um nýjan kafla í samskiptum þjóðanna að ræða, þó svo að Obama sé þriðji Bandaríkjaforsetinn sem heimsækir Víetnam frá því að þjóðirnar tóku aftur upp opinber samskipti árið 1995.

Víetnam er nágrannaríki Kína og gegnir lykilhluverki í nýmótaðri utanríkisstefnu Obama, sem leggur meiri áherslu á Asíu. Meðal annars hafa Bandaríkin áhyggjur af þeirri staðreynd að Kína hefur lýst yfir yfirráðum yfir 80 prósentum Suður-Kínahafs.

Obama sagði á blaðamannafundi með Tran Dai Quang, forseta Víetnam, að deilumál um Suður Kínahaf ætti að leysa á friðsamlegan hátt en ekki með ógnunum. Hann ítrekaði að afnám vopnaviðskiptabannsins hefði þó ekkert með Kína að gera.