Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla fyrstu níu mánuði ársins í norsk-íslenskri síld, makríl, úthafskarfa á Reykjaneshrygg og kolmunna.

Ágæt aflabrögð í kolmunna

Það sem af er ári hafa íslensk skip veitt 188 þúsund tonn af kolmunna. Á sama tíma í fyrra var aflinn 172 þúsund tonn. Mestur afli á yfirstandandi vertíð er veiddur í lögsögu Færeyja eða 170 þúsund tonn og í íslenskri lögsögu 16 þúsund tonn. Aflahæsta skipið í kolmunna á ofangreindu tímabili er Jón Kjartansson  SU með 22 þúsund tonn. Næst kemur Hoffell SU með 19,2 þúsund tonn og Beitir NK með 19 þúsund tonn.

Litlu minni makrílafli en á síðasta ári

Makrílvertíð er lokið og var heildarafli íslenskra skipa á vertíðinni 166 þúsund tonn. Þetta er litlu minni afli en á vertíðinni 2014 þegar hann var 171 þúsund tonn. Íslensk skip fengu 148 þúsund tonn eða 89% aflans í íslenskri lögsögu en 17 þúsund tonn á alþjóðlegu hafsvæði.

Aflahæsta skipið á makrílveiðunum var Aðalsteinn Jónsson SU með 12,4 þúsund tonn og Huginn VE með tæp 10 þúsund tonn.

Síldarafli svipaður og á síðasta ári

Heildarafli íslenskra skipa á síld fyrstu níu mánuðum ársins er svipaður og á síðasta ári. Íslensku skipin höfðu landað 32,7 þúsund tonnum á yfirstandandi vertíð miðað við 35,8 þúsund tonn á sama tíma í fyrra. Þar af hafa íslensku skipin fengið 32,4 þúsund tonn úr íslenskri lögsögu eða 99,2% af afla úr norsk-íslenska síldarstofninum.