Fiskafli í heiminum nam 96,9 milljón tonnum árið 2014 sem er aukning um 696 þúsund tonn frá árinu áður. Þetta kemur fram í tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna.

Veiddist mesti aflinn í Kyrrahafi, en sú fisktegund sem mest var veitt af var alaskaufsi. Undanfarin ár á undan hafði þó perúansjósa verið sú tegund sem mest var veitt á, en mikill aflasamdráttur varð milli áranna 2013 og 2014.

Mest af heimsaflanum var veiddur í Asíu, næst mest í Ameríku og svo Evrópu. Kínverjar veiddu mest allra þjóða árið 2014, en Norðmenn veiddu mest allra Evrópuþjóða og eru í 11. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir.

Íslendingar eru í þriðja sæti Evrópuþjóða og í 20. sæti á heimsvísu með 1,1% heimsaflans að því er fram kemur í frétt Hagstofunnar.