Frá árinu 2007 hafa verið gerðar samtals 240 breytingar á íslenska skattkerfinu, þar af hafa 179 þeirra verið skattahækkanir, en 61 breytingar til lækkunar skatta.

Mat Viðskiptaráðs á breytingunum 27 sem urðu nú um áramótin er að heilt yfir hafi skattkerfið tekið framförum, en breytingar á tollalögum skipti þar mestu.

„Afnám tolla á allar vörutegundir nema landbúnaðarvörur vegur þyngst af öllum breytingunum,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í samtali við Viðskiptablaðið um úttekt ráðsins á skattkerfisbreytingunum.

„Þetta er gríðarleg kjarabót fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga sem mun skila sér í lægra vöruverði. Fyrst og fremst er hér um einföldun að ræða, þessir tollar sem voru afnumdir skila litlum tekjum, en vöruflokkarnir eru þúsundir talsins. Erfitt er þó að meta efnahagsleg áhrif afnáms þeirra í krónum, vegna þess hve flækjustigið var mikið.

Fyrir tveimur árum var þó gerð sambærileg lækkun þegar almenn vörugjöld voru afnumin, og sáum við að það skilaði sér í verulegri lækkun til dæmis á heimilistækjum og raftækjum. Sama sáum við líka gerast þegar tollar á föt og skó voru afnumdir áramótin 2015 til 2016.“

Samkeppnishæfni batnar

Viðskiptaráð bendir einnig á að samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja hafi styrkst um áramótin. Þar munar mest um hærra þak á endurgreiðslu vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarvinnu sem og vegna sérstakrar 25% frádráttarheimildar á tekjuskatta erlendra sérfræðinga.

„Þetta auðveldar íslenskum útflutningsfyrirtækjum að keppa á alþjóðlegum mörkuðum,“ segir Björn.

„Þriðja atriðið er svo skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum, en því ákvæði fylgja kvaðir sem eru það íþyngjandi að við teljum þau hafa takmörkuð jákvæð efnahagsáhrif.“

Björn segir að Viðskiptaráð hafi byrjað að gera árlegar úttektir á skattkerfisbreytingum í kjölfar þess að skattar voru bæði hækkaðir verulega og þeim fjölgað eftir hrunið.

„Þá sáum við að þessar breytingar voru farnar að hafa skaðleg áhrif á starfsemi fyrirtækja og verðmætasköpun í landinu. Breytingar síðustu ára hafa hins vegar verið jᬠkvæðar og höfum við undið ofan af þessu á undanförnum árum, en við stöndum enn frammi fyrir stórum vandamálum.“

Þrennar umbætur brýnastar

Björn nefnir í því samhengi þrjú atriði sem taka þurfi á í íslenska skattkerfinu.

„Í fyrsta lagi eru mjög háir jaðarskattar á millitekjufólk á Íslandi sem dregur úr hvata einstaklinga til að bæta við tekjur sínar, með því að mennta sig meira eða með öðrum hætti,“ segir Björn og vísar þá sérstaklega í áhrif skerðinga í vaxta- og barnabótakerfunum.

„Jaðarskattur á fólk með laun á bilinu 300 til 500 þúsund á mánuði er yfir 50%, meðan hann er minni á fólk með bæði hærri og lægri tekjur."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .