Vísitala íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu var 485,8 stig í júlí 2016 og hækkaði um 2,2 prósent frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í frétt Þjóðskrár Íslands í dag. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 5,7% og hefur hún alls hækkað um 12,4% síðastliðið ár.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs og er íbúðarhúsnæði skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Alls er reiknað meðalfermetraverð fyrir níu flokka íbúðarhúsnæðis og niðurstaðan vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði.

Þess má geta að í gær kynntu fjármála- og forsætisráðherra nýtt frumvarp sem einfalda á fyrstu íbúðakaup . Tilgangur frumvarpsins er að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup. Jafnframt felur frumvarpið í sér aðgerðir sem eiga að veita stuðning við þá sem vilja taka óverðtryggð lán þar sem samspil greiðslna inn á höfuðstól og afborganir gera greiðslubyrði þeirra á fyrstu árum sambærilega við löng verðtryggð lán.