Fasteignaverð hækkar enn á höfuðborgarsvæðinu. Það hækkaði um 0,9% milli mánaða í ágúst og hækkaði sérbýli og fjölbýli jafn mikið. Þetta kemur fram í greiningu Hagfræðisdeildar Landsbankans .

Þar segir meðal annars að síðastliðið ár hefur fjölbýli hækkað um 13,7% og sérbýli um 11,7%, sem er heildarhækkun um 13,1%. Þessar hækkanir á síðustu tólf mánuðum eru þær mestu um árabil. Þarf að leita aftur ársins 2007 til að sjá álíka tölur.

Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitala fasteignaverðs um 5,4% og um 8,2% á síðustu sex mánuðum.

Þar kemur einnig fram að „Hækkun fjölbýlis hefur verið mikil og  stöðug í langan tíma og hafa meiri sveiflur verið í verðþróun sérbýlis. sérbýlið hefur þó tekið vel við sér á síðustu mánuðum.“

Skila sér í hækkun raunverðs

Verðhækkanirnar verið svo miklar að þær skila sér í hækkun  raunverðs. Þar sem að verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri þá hefur raunverð fasteigna hækkað meira en ella, segir í greiningunni. „Vísitala neysluverðs án húsnæðis í ágúst var 1% lægri en í ágúst 2015, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun og rúmlega það“ segir í greiningunni.

Minni viðskipti með fasteignir

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru minni í ágúst en á sama tíma í fyrra. Það á sérstaklega við um viðskipti með fjölbýli. Það sem er af árinu eru meðalviðskipti með fjölbýli á mánuði svipuð og var á öllu árinu 2015 og fjöldi viðskipta með sérbýli meiri.

Séð fram á áframhaldandi hækkanir

Hagfræðisdeild Landsbankans telur verðhækkanirnar síðustu mánaða benda til þess að spá deildarinnar hafi verið full íhaldssöm. Að mati deildarinnar „vísa flestir undirliggjandi þættir, t.d. mun minna framboð en eftirspurn og aukning kaupmáttar og meiri kaupgeta í áframhaldandi hækkanir fasteignaverðs“ segir í greiningunni.