Verðbólga mældist 1,9% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands sem komu út í morgun og áður hefur verið fjallað um. Þar er bent á að vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur lækkað um 1,8% á síðastliðnum tólf mánuðum.

Þegar tölur yfir verðbólgu komu út fyrir mánuði, benti Greining Íslandsbanka á að verðhjöðnun hafi ekki mælst eins mikil á þennan kvarða í hálfa öld samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þar hefur ekkert breyst og hefur verðhjöðnunin einungis aukið um 0,1 prósentustig milli mánaða.

Undanfarin misseri hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs verið meginrót þeirrar verðbólgu sem mælist og sést það nokkuð skýrt á myndinni sem fylgir hér að neðan.

Spá svipaðri verðbólgu á næstu mánuðum

Greining Íslandsbanka segir í nýrri greiningu að horfur séu á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuðina. „Við spáum 0,3% hækkun VNV í maí, 0,2% hækkun í júní en 0,2% lækkun VNV í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,0% í júlí.“