Kauphöllin hafnaði í liðinni viku beiðni Heimavalla hf. um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum á aðalmarkaði. Framkvæmdastjóri Heimavalla segir að vilji hluthafa sé alveg skýr og að þeir vilji úr Kauphöllinni.

Á aðalfundi Heimavalla í mars var lögð fram tillaga um afskráningu af aðalmarkaði og var hún samþykkt með 81,3% atkvæða. Önnur atkvæði féllu á móti tillögunni.

Ákvörðun Kauphallarinnar byggði meðal annars á því að eignarhald almennra fjárfesta í félaginu væri umfram þau 25% sem krafa væri gerð um og að áframhaldandi viðskipti með bréfin á aðalmarkaði væru ekki til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á trúverðugleika markaðarins. Verulega myndi draga úr seljanleika bréfa félagsins við töku þeirra úr viðskiptum og auk þess myndi fjárfestavernd tapast.

„Bæði félagið og tilboðsgjafar hafa verið í samskiptum við Kauphöllina til að velta upp hvaða möguleikar eru í stöðunni,“ segir Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla. Niðurstaða Kauphallarinnar hafi hvorki komið á óvart né verið viðbúin segir Arnar Gauti. Nærri engin fordæmi séu fyrir afskráningu og því hafi hvorug niðurstaðan verið líklegri en hin.

„Það þarf minnst þrjár vikur til að boða til hluthafafundar ef kjósa á aftur og maður gerir það ekki svo glatt. Að okkar mati þá gildir fyrri kosning eins og staðan er í dag. Meirihluti hluthafa vill afskráningu af aðalmarkaði og við vinnum áfram eftir því,“ segir Arnar Gauti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .