„Mér líst bara vel á Gísla. Hann er frábær sjónvarpsmaður og á ábyggilega eftir að gera þetta vel,“ segir Egill Helgason sjónvarpsmaður. Tilkynnt var í dag að Gísli Marteinn Baldursson væri hættur í stjórnmálum og hann myndi taka að sér að stýra umræðuþætti fyrir hádegi á sunnudögum. Egill segir að Gísli Marteinn sé mjög frambærilegur sjónvarpsmaður.

Á vefsíðu sinni bendir Gísli Marteinn á að þátturinn taki við af Silfri Egils, en Egill segist sjálfur ekki líta á Gísla sem eftirmann sinn. „Ég lít kannski ekki á hann sem eftirmann minn vegna þess að ég held að þáttur hans verði ekki alveg það sama og ég hef verið að gera,“ segir Egill.

Egill segist ekki hafa vitað af því að til stæði að ráða Gísla Martein og hann hafi ekki skipt sér af því. „Þetta er kafli í lífi mínu sem er bara búinn,“ segir Egill. Egill segist ekki sjá eftir þætti sínum. „Þetta voru dásamleg ár en ég er bara feginn að þetta er búið,“ segir Egill.