Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í nýrri skýrslu að alþjóðafjármálastöðugleiki hafi aukist. Þeir vara þó við áhættuþáttum á borð við aukna pólitíska áhættu í Evrópu og Bandaríkjunum. Frá þessu greinir breski ríkisfjölmiðillinn BBC.

AGS hefur enn fremur áhyggjur af aukinni skuldsetningu í Kína. Nýverið gaf stofnunin frá sér greiningu þar sem kemur fram að efnahagsvöxtur á alþjóðavísu sé að taka við sér. AGS spáir að hagvöxtur á alþjóðavísu verði 3,5% á þessu ári, en hann var 3,1% í fyrra.

Aukinn hagvöxtur hefur þau áhrif að heimili, fyrirtæki og ríki, hafi meiri tekjur til þess að greiða niður skuldir, sem hefur jákvæð áhrif á rekstur fjármálastofnana.

Enn fremur bendir AGS á að minni áhætta sé í ríkjum sem treysta á hráefnaframleiðslu þar sem að verð á hráefnum hefur hækkað — en hafa þau verið í lágmarki á síðustu misserum.