Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur varað Úkraínu við að ef ríkið taki ekki þegar í stað harðari afstöðu gegn spillingu í stjórnkerfi landsins þá eigi það á hættu að AGS hætti fjárhagsaðstoð við landið.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í ræðu í gær að ef ekki yrði gripið til umfangsmikilla aðgerða til að bæta stjórnarhætti þá væri erfitt að sjá hvernig sjóðurinn gæti réttlætt að halda áfram fjárhagsaðstoð við ríkið. Hún sagðist einnig hafa áhyggjur af því hversu hægt umbæturnar ganga.

Samkvæmt áætlun sjóðsins átti Úkraína að fá fjárhagsaðstoð frá sjóðnum í áföngum. Þriðji áfangi greiðslnanna frá sjóðnum átti að greiðast í október sl. en greiðslur hafa tafist vegna þess að sjóðurinn hefur áhyggjur af spillingu í landinu. Efnahagur Úkraínu dróst saman um rúmlega 7% á síðsta ári og gjaldmiðill landsins hefur lækkað mikið undanfarið.

Utanríkisráðherra Úkraínu, Pavlo Klimkin, sagði að hann teldi ummæli sjóðsins ekki vera viðvörun heldur skilaboð. Hann sagði að aðstoð sjóðsins væri afar mikilvæg fyrir Úkraínu en baráttan gegn spillingu yrði ekki unnin á einum degi, hún gæti tekið mörg ár.