Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lækkað hagvaxtaspá sína fyrir Bretland og Bandaríkin fyrir árið 2017. Spáir sjóðurinn því að hagvöxtur í löndunum tveimur, verði minni en fyrri spár gerðu ráð fyrir. BBC greinir frá.

Samkvæmt spá sjóðsins mun hagvöxtur í Bretlandi nema 1,7% í stað 2% í fyrri spá. Þá mun hagvöxtur í Bandaríkjunum nema 2,1% í stað 2,3%. Samkvæmt sjóðnum voru umsvif í breska hagkerfinu minni en búist var við á fyrstu þremur mánuðum ársins og því var spáin lækkuð.

AGS breytti ekki hagvaxtarspá sinni fyrir heiminn í heild sinni og spáir enn 3,5% hagvexti á heimsvísu á árinu 2017 og 3,6% fyrir árið 2018. Þá hækkaði sjóðurinn spá sína fyrir evrusvæðið og spáir nú 1,9% hagvexti í stað 1,7% áður.