Ragnar Þór Ingólfsson,formaður VR, kallaði eftir því í dag að lífeyrissjóðirnir færu fram á opinbera rannsókn á viðskiptum tengdum Bakkavör .  Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir aðdróttanir Ragnars Þórs í sinn garð ekki svaraverðar. Hann segir aftur á móti að þar sem Bakkvör sé í dag skráð í Kauphöllinni í London sé hann tilneyddur til að svara efnislega og útskýra á viðeigandi hátt þær „rangfærslur sem settar eru fram um félagið og starfsemi þess."

Þetta kemur fram í yfirlýsingu, sem Ágúst hefur sent Viðskiptablaðinu. Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér:

„Seinni hluta árs 2014 ákváðu tilteknir lífeyrisjóðir og Arion banki, sem áttu samtals u.þ.b. helming hlutafjár í Bakkavör, að leita leiða til að selja hluti sína í félaginu. Rekstur þess hafði verið erfiður um nokkurra ára skeið og virði félagsins var því um tíma lítið. Rekstur félagsins hafði hins vegar styrkst mikið á árunum 2012 og 2013 og þegar kom fram á árið 2014 lá fyrir að hlutir í Bakkavör gætu reynst áhugaverður kostur fyrir fjárfesta. Áætlanir félagsins bentu til þess að bjartari tímar væru framundan og því ákváðu stærstu hluthafar þess að leita leiða til að innleysa þau verðmæti sem skapast höfðu.

Að beiðni lífeyrisjóðanna og Arion banka samþykkti stjórn Bakkavarar á stjórnarfundi síðla árs 2014 að leita ráðgjafar við að finna hugsanlega kaupendur að hlutum lífeyrissjóðanna og Arion banka í félaginu. Söluferlið var kostað af Bakkavör og hafði stjórn félagsins yfirumsjón með ferlinu. Rætt var við nokkrar alþjóðlegar fjármálastofnanir um ráðgjafahlutverk og á endanum var Barclays banki fyrir valinu.

Á ársbyrjun 2015 var hafist handa og PWC fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á félaginu. Hluti af fjárhagslegri áræðanleikakönnun PWC fólst í fjárhagsáætlanum félagsins til næstu ára. Þær áætlanir hafa staðist með óverulegum frávikum. Jafnframt gerðu ýmsir aðrir sérfræðingar áreiðanleikakannanir, svo sem varðandi lagaleg atriði, skattamál, markaðsstöðu, o.s.frv. Ekkert athugavert kom út úr áreiðanleikakönnunum og í kjölfarið hóf Barclays að kanna hug mögulegra fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Töluverður áhugi reyndist vera fyrir hendi hjá fjárfestum en að lokum voru valdir tveir aðilar sem kepptu um að kaupa hlutina og réði verð þar mestu um. Svo fór að lífeyrissjóðirnir og Arion ákváðu að selja hlutina til bandaríska fjárfestingasjóðsins Baupost.

Mikilvægt er að fram komi að lífeyrissjóðirnir og Arion banki höfðu menn í stjórn félagsins frá árinu 2010 og meirihluta stjórnar frá 2013. Þeir höfðu að sjálfsögðu fullan aðgang að fjárhagsupplýsingum félagins en einnig er rétt að benda á að Bakkavör gaf út skráðan skuldabréfaflokk árið 2011 og þurfti þar með að birta ársfjórðungslegt uppjör og endurskoðuð uppgjör tvisvar á ári.

Aðdróttanir sem komu frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, í minn garð og annarra sem að söluferlinu komu er ekki svaraverður. Ég sé mig hins vegar tilneyddan til þess, í kjölfar þess að Bakkavör er nú skráð félag í Kauphöllinni í London, að svara efnislega og útskýra á viðeigandi hátt þær rangfærslur sem settar eru fram um félagið og starfsemi þess."