Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar og Steinar Helgason, sjóðsstjóri hjá Landsbréfum, hafa sest í stjórn Bláa lónsins að því er kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. Þau koma inn í stjórnina í stað Eðvards Júlíussonar, sem hefur verið í stjórninni í fjölmörg ár, sem og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Ágústa á nálega þriggja prósenta hlut í Bláa lóninu í gegnum Bogamanninn ehf. Ef tekið er mið af því að tilboði sem hefur borist sjóðnum í 30 prósenta hlut HS Orku í Bláa lónið, er fyrirtækið verðlagt á yfir 30 milljarða og er því hlutur Ágústu metinn á um milljarð króna. Steinar situr í stjórn Bláa lónsins fyrir hönd framtakssjóðsins Horn II, sem er í rekstri Landsbréfa.