Alþingi verður kallað saman 14. desember eftir ákvörðun þess efnis á ríkisstjórnarfundi í gær. Þar var jafnframt gengið frá nýju fjárlagafrumvarpi í öllum helstu efnisatriðum, en það verður fyrsta og helsta mál þingsins að því er Morgunblaðið greinir frá.

Sama dag heldur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnuræðu sína og verða í kjölfarið umræður um hana eins og hefð er fyrir. Nýja ríkisstjórnin mun fram að áramótum funda tvisvar í viku að sögn Katrínar því svo mörg verkefni liggi fyrir.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrra segir að í fjárlagafrumvarpinu sé lögð áhersla á aukin útgjöld. Nefnir hann í því samhengi heilbrigðis- mennta- og samgöngumál, en hann segir eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um að vikið verði frá fjármögnun vegauppbyggingar með gjaldtöku.

„[O]g erum að horfa til opinberrar fjármögnunar á þeim verkefnum sem við erum í,“ segir Sigurður Ingi.