Samfylkingin í Kópavogi hélt blaðamannafundi í Garðskálanum Gerðubergi í dag þar sem listinn kynnti helstu áherslumál sín fyrir fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.

Samfylkingin í Kópavogi vill brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Að öll börn fái leikskólapláss í leikskólum Kópavogs frá 12 mánaða aldri. „Í dag eru yfir 100 leikskólapláss sem standa auð í leikskólum bæjarins. Við viljum bæta starfsaðstæður leikskólakennara og starfsfólks í leikskólum meðal annars með styttingu vinnuviku,“ segir í tilkynningu frá framboðinu.

Þá er lögð áhersla á fjölbreytt framboð á húsnæði í Kópavogi þannig að ungir Kópavogsbúar þurfi ekki að leita í önnur sveitarfélög eftir húsnæði. Að nægjanlegt framboð sé af húsnæði fyrir leigjendur, námsmenn, eldri borgara og fyrstu kaupendur. Að uppbygging á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fari fram í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

Flokkurinn vill jafnframt ráðast gegn fátækt en í tilkynningunni segir að leiða megi líkur að því að um 600 börn búi við fátækt samkvæmt skilgreiningum í skýrslu UNICEF. „Ein meginástæða fátæktar er skortur á húsnæði og því mikilvægt að fjölga félagslegum íbúðum. Auk þess vill Samfylkingin efla forvarnir og tryggja þjónustu við þá sem þess þurfa í baráttunni við fátækt. Einn liður í því er að hækka íþrótta og tómstundastyrk upp í 80.000 krónur á ári.“

Ennfremur vill Samfylkingin grænni Kópavog, plastpokalausan Kópavog í samvinnu við verslanir, snjallari kópavog með lausnir í ferðamálum, sorpmálum ofl. og vill bæta þjónustu við eldri borgara.