Í kjaraviðræðunum hefur megináhersla verið lögð á kjarabætur fyrir hina lægstlaunuðu. Forsvarsmenn atvinnulífsins, sem og forsætis- og fjármálaráðherra, virðast sammála um nauðsyn þess að bæta hag þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Í viðtali í bókinni 300 stærstu, sem Frjáls verslun gaf út fyrir áramót, tjáði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sig um þetta atriði.

„Ég heyri mjög skýrt að það sé sanngjarnt og réttlætismál að þeir sem séu á lægstu laununum hækki. Því er ég sammála,“ sagði Bjarni. „Það þarf bara að gerast í réttum skrefum og í jafnvægi. Þeir sem eru neðst í launastiganum þurfa að hafa það betra. Hins vegar er launajöfnuður á Íslandi nú þegar einhver sá mesti sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Það er því ekki við öðru að búast en hækkun lægstu launa muni leita upp launastigann.“

Þarna liggur einmitt hundurinn grafinn. Alveg eins og Samtök atvinnulífsins eru hagsmunasamtök fyrirtækja í landinu þá eru stéttarfélög í eðli sínu hagsmunasamtök ákveðinna hópa í samfélaginu. Eins og staðan er í dag ríkir ekki sátt innan verkalýðshreyfingarinnar um að megináherslan í kjaraviðræðunum núna skuli lögð á hækkun lægstu launa án þess að þær hækkanir leiti upp allan launastigann. Nærtækast er að taka BHM sem dæmi. Samninganefndir aðildarfélaga BHM komu saman í fyrradag til að ræða áherslurnar í komandi kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög. Samningar BHM renna út í mars og verður aðalkrafa stéttarfélagsins í þeim samningum að menntun verði metin til launa. Í samtali við RÚV sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, að niðurstaða samninga á almenna markaðnum myndi „að sjálfsögðu“ hafa áhrif á aðra vinnumarkaði og skírskotar þá til opinbera markaðarins.

Höfrungahlaup og togstreita

Þróist kjaraviðræðurnar í takt við það sem formaður BHM lýsir virðist hið sígilda höfrungahlaup á íslenskum vinnumarkaði vera rétt í þann mund að hefjast, sem og togstreitan á milli almenna og opinbera markaðarins.

Sögulega hafa miklar launahækkanir upp allan stigann leitt til þess að kaupmáttur hefur aukist í skamman tíma en síðan hefur farið að síga á ógæfuhliðina. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna. Þetta gerðist ekki eftir samningana árið 2015. Í aðdraganda þeirra samninga skrifuðu hagfræðingar allra heildarsamtakanna á vinnumarkaði minnisblað, þar sem fram kom ákveðin verðbólguspá sem miðaði við þær launahækkanir sem kjarasamningarnir síðan kváðu á um. Samkvæmt þessu minnisblaði var gert ráð fyrir verulegri verðbólgu árin 2016 til 2018. Ástæðan fyrir því að þær spár raungerðust ekki er að allir ytri þættir voru þjóðinni einstaklega hagfelldir. Ferðaþjónustan fór á flug með tilheyrandi innflæði gjaldeyris, krónan styrktist, olíuverð lækkaði og Costco kom til landsins með tilheyrandi áhrifum á smásölumarkaðinn. Þá voru vörugjöld og tollar af ýmsum varningi felld niður. Slíkar aðgerðir er ekki hægt að framkvæma aftur.

„Miðað við kaupmáttaraukningu síðustu ára þá eru vonbrigði að ekki sé meiri sátt á vinnumarkaði,“ sagði fjármálaráðherra í viðtalinu í 300 stærstu. „Hér hefur kaupmáttur aukist um 24 til 25 prósent á síðustu þremur til fjórum árum og það er, í öllu sögulegu samhengi, algjört afrek. Við öll, almenningur, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld, eigum sameiginlega að vera gríðarlega ánægð og stolt af þessum árangri. Það er aftur á móti eins og margir telji að þetta hafi verið sjálfsagt. Sumir segja heppni. Aðrir segja að þetta sé ekki nóg. Af minni hálfu væri óábyrgt annað en að benda á að hugmyndir um að þetta endurtaki sig á næstu 3-4 árum eru algerlega óraunhæfar og stríða gegn öllum lögmálum efnahagsmála.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér .