Helstu áherslur nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í efnahagsmálum byggjast á því að styðja við sterka stöðu í ríkisfjármálum með aðhaldi í ríkisrekstri, sölu eigna sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins og niðurgreiðslu ríkisskulda. Þá sagði Benedikt Jóhannesson, sem að öllum líkindum verður nýr fjármálaráðherra í ríkisstjórninni að áhersla skuli vera lögð á opið og gagnsætt söluferli eigna.

Skuldlaust Ísland 2027

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkið skuli nýta betur sameiginleg innkaup til að draga úr útgjöldum. „Sett skulu tímasett markmið um betri rekstur og aukna framleiðni hjá hinu opinbera. Stefnt er að því að allar varanlegar útgjaldaákvarðanir rúmist innan hagsveiflunnar,“ segir meðal annars í stefnuyfirlýsingunni.

Langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar er jafnframt að hreinsa skuldir ríkissjóðs innan tíu ára.

Stöðugleikasjóður í bígerð

Tekið var fram á fundinum að stefnt væri að því að stofna til stöðugleikasjóðs til þess að halda utan um arð ríkisins af orkuauðlindum til að tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum. Einnig gæti sjóðurinn verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið til lengri tíma.

„Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikilvæg forsenda jafnvægis og vaxtar í efnahagslífi,“ er einnig tekið fram í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Þar meðal annars vísað til þess að einn vinnumarkaður með jöfnun lífeyrisréttinda og annarra almennra réttindi sé lykilatriði sem leiða mun til meira gagnsæis í kjaramálum. „Ríkisstjórnin mun styðja aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd sem drög hafa verið lögð að í svonefndu SALEK-samkomulagi,“ er einnig tekið fram.

Hyggja að skattaumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Í stjórnarsáttmálanum er jafnframt tekið fram í grófum dráttum hver stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Þar er meðal minnst á að huga þurfi sérstaklega að skattaumhverfi einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja með einföldun og lækkun tryggingargjalds í huga.

Ríkisstjórnin sem tekur við lofar því jafnframt að vinna gegn skattaundanskotum, þar með talið í skattaskjólum. „Sanngjarnt skattaumhverfi dregur úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum til að auka alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja,“ segir í kaflanum um skattamál.

Selja bankana

„Til langs tíma litið er ekki ákjósanlegt að ríkið fari með meirihlutaeign í viðskiptabönkum. Því er mikilvægt að minnka hlut ríkisins í varfærnum skrefum og víðtækri sátt. Áhersla verði lögð á opið og gagnsætt ferli þar sem gætt verður að sem mestri dreifingu eignarhalds. Í því augnamiði verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust,“ er jafnframt tekið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar - þegar rætt er um framtíð bankakerfisins.