Töluvert hefur dregist úr fjölgun gistinátta á heilsárshótelum á Íslandi á síðastliðnum tveimur mánuðum. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands nam fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í júní 369 þúsund og jókst um 8,1% frá sama mánuði í fyrra. Aukningin í maí nam 6,1% á 12 mánaða grundvelli. Til samanburðar nam aukningin á bilinu 17 til 49% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans . Þar kemur fram að þessi fjölgun í maí og júní skeri sig verulega frá þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu misseri og leita þarf aftur til júlímánaðar 2014 til að finna minni fjölgun.

Í Hagsjánni er sömuleiðis bent á það að áhrifa heimagistingar (Airbnb), gæti í tölunum. Ferðamenn kjósa í auknum mæli Airbnb sem leiðir til minnkandi hlutdeildar hótela og gistiheimila á gistimarkaðnum. „Dvalarlengd á ferðamann á fyrri árshelmingi var 1,8 nótt að meðaltali og hefur hún dregist saman á hverju ári síðan árið 2012. Þessa þróun má líklegast skýra að mestu leyti með tvennu. Annars vegar hefur verð á hótelgistingu farið verulega hækkandi á síðustu árum í erlendri mynt og ferðamann hafi af þeim sökum leitað í ódýrari gistingu. Hins vegar hefur hegðun ferðamanna breyst á síðustu árum og þá ekki bara hér á landi.