Atvinnuveganefnd hefur undanfarnar vikur haft til umfjöllunar frumvarp til nýrra laga um ívilnanir til nýfjárfestinga. Málið var á dagskrá nefndarinnar á mánudaginn og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður frumvarpið fljótlega afgreitt úr nefndinni, hugsanlega í dag.

„Málið er bara að koma út úr nefndinni og við munum gera á því einhverjar breytingar," segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar. „Málið er unnið í víðtækri sátt í nefndinni en ég get ekki sagt á þessari stundu í hverju breytingarnar felast. Við eigum eftir að loka þessu. Þetta er í meginatriðum klárt en við eigum samt eftir að laga nokkur smáatriði."

Ívilnanasamningar til fyrirtækja komust í kastljósið þegar greint var frá því að Matorka hefði í lok febrúar undirritað slíkan fjárfestingarsamning við stjórnvöld. Eins og Viðskiptablaðið hefur margoft greint frá felur samningurinn það í sér að fyrirtækið fær 426 milljóna króna afslátt af sköttum og opinberum gjöldum. Ívilnanirnar gilda í allt að tíu ár frá því gjaldskylda myndast hjá fyrirtækinu. Enn fremur sótti Matorka um 50 milljóna króna þjálfunaraðstoð frá ríkinu en sú aðstoð á að nýtast til menntunar starfsfólks sem fyrirtækið hyggst ráða.

Landssamband fiskeldisstöðva mótmælti harðlega samningnum við Matorku og sagði hann raska samkeppni í greininni. Í samtali við Viðskiptablaðið þann 12. mars sagði Höskuldur Steinarsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, að sértækar aðgerðir eða ívilnanir til handa einum framleiðenda með þessum hætti hefðu bein áhrif á markaðsstöðu þeirra sem fyrir væru.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins snúa breytingar atvinnuveganefndar einmitt að þessu atriði. Fleiri aðilar eða stofnanir munu koma að því að meta fjárfestingarverkefnin. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun því þurfa að senda samningsdrög eða upplýsingar um verkefni meðal annars til Byggðastofnunar. Mun það vera vilji atvinnuveganefndar að stofnunin skoði meðal annars áhrif fjárfestingarverkefna á markaðinn og möguleg ruðningsáhrif gagnvart öðrum fyrirtækjum sem eru í sama rekstri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .