Áhrif aflandskrónuútboðsins sem Seðlabanki Íslands hyggst halda á næstunni munu að stórum hluta velta á þáttöku fjármagnseigenda í útboðinu sem og útboðsgenginu sjálfu. Þetta segir Greiningardeild Arion banka í nýútgefinni greiningu um aflandskrónuútboðið.

Í lok apríl þessa árs var gjaldeyrisforði Seðlabankans 760 milljarðar króna. Óskuldsetti hluti forðans, sá sem er ekki fjármagnaður í krónum, nemur ríflega 400 milljörðum króna. Bankinn hefur hingað til talið að þörf sé á stórum gjaldeyrisforða vegna losunar haftanna.

Þá verður allt að 81% þess hluta gjaldeyrisforðans sem óskuldsettur er ráðstafað í útboðinu, að því gefnu að þátttaka verði 100% og útboðsgengið 140 krónur gegn hverri evru - eða um 325 milljarðar þeirra 400 sem óskuldsetti hluti forðans samanstendur af.

Að sama skapi, ef þátttaka verður 25% og útboðsgengið 220 krónur gegn hverri evru, verða aðeins 12,5% óskuldsetta forðans notaðar í útboðinu - eða um 50 milljarðar króna. Þannig er ljóst að mikill munur getur verið á áhrifum útboðsins á gjaldeyrisforðann eftir aðstæðum og þáttöku.