Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management, segir félagið hafa fundið fyrir þó nokkrum áhuga erlendra aðila á fjárfestingum í innlendum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. GAMMA gaf nýverið út skýrslu um ferðaþjónustuna og þau fjárfestingartækifæri sem gætu verið til staðar fyrir erlenda aðila í greininni.

„Þetta eru helst erlendir aðilar sem hafa haft áhuga á uppbyggingu eða rekstri hótela hér á landi og við erum að ræða við stórar erlendar hótelkeðjur. Svo hefur áhugi aukist frá aðilum sem sérhæfa sig í afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar, sérstaklega frá Bandaríkjunum,“ segir Valdimar.

Stærsta fasteignaþróunarfélag Alaska, JL Properties, og bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors keyptu samtals 75% hlut í Keahótelum, þriðju stærstu hótelkeðju landsins, á síðasta ári. TripAdvisor keypti á dögunum Bókun, sem framleiðir hugbúnað fyrir ferðaþjónustuna. Þá sýndi Blackstone, einn þekktasti fjárfestingarsjóður heims, áhuga á að kaupa 30% hlut í Bláa lóninu síðasta sumar fyrir rúmlega 11 milljarða króna, en ekkert varð þó af kaupunum.

Sjá einnig: Samþjöppun komin á fullt skrið

Eigendur fjölmargra innlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu leita einnig eftir því að selja annaðhvort fyrirtækin í heild eða að hluta til erlendra fjárfesta.

„Þar höfum við fundið fyrir mestum áhuga hjá hóteleigendum, sem er kannski merki um það að fjárfestingarfrek verkefni eru að verða aðþrengd í fjármögnun eingöngu hér innanlands. Það væri því mjög jákvætt merki fyrir íslenskt hagkerfi að fá inn fjársterka aðila á hótelmarkaðinn,“ segir Valdimar.

Eins og kunnugt er hefur fjárfesting í gistiþjónustu ekki mætt eftirspurn, sem endurspeglast í því að nýting hótelherbergja er með hæsta móti á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og gisting orðin ein sú dýrasta á Norðurlöndunum. Jafnframt hefur það blásið lífi í Airbnb markaðinn hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .