*

föstudagur, 19. apríl 2019
Innlent 29. apríl 2018 12:01

Áhugi á hótelum og afþreyingu

Forstjóri GAMMA segir erlenda fjárfesta hafa áhuga á uppbyggingu eða rekstri hótela hér á landi sem og afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar.

Snorri Páll Gunnarsson
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management.
Haraldur Guðjónsson

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management, segir félagið hafa fundið fyrir þó nokkrum áhuga erlendra aðila á fjárfestingum í innlendum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. GAMMA gaf nýverið út skýrslu um ferðaþjónustuna og þau fjárfestingartækifæri sem gætu verið til staðar fyrir erlenda aðila í greininni.

„Þetta eru helst erlendir aðilar sem hafa haft áhuga á uppbyggingu eða rekstri hótela hér á landi og við erum að ræða við stórar erlendar hótelkeðjur. Svo hefur áhugi aukist frá aðilum sem sérhæfa sig í afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar, sérstaklega frá Bandaríkjunum,“ segir Valdimar.

Stærsta fasteignaþróunarfélag Alaska, JL Properties, og bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors keyptu samtals 75% hlut í Keahótelum, þriðju stærstu hótelkeðju landsins, á síðasta ári. TripAdvisor keypti á dögunum Bókun, sem framleiðir hugbúnað fyrir ferðaþjónustuna. Þá sýndi Blackstone, einn þekktasti fjárfestingarsjóður heims, áhuga á að kaupa 30% hlut í Bláa lóninu síðasta sumar fyrir rúmlega 11 milljarða króna, en ekkert varð þó af kaupunum.

Sjá einnig: Samþjöppun komin á fullt skrið

Eigendur fjölmargra innlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu leita einnig eftir því að selja annaðhvort fyrirtækin í heild eða að hluta til erlendra fjárfesta.

„Þar höfum við fundið fyrir mestum áhuga hjá hóteleigendum, sem er kannski merki um það að fjárfestingarfrek verkefni eru að verða aðþrengd í fjármögnun eingöngu hér innanlands. Það væri því mjög jákvætt merki fyrir íslenskt hagkerfi að fá inn fjársterka aðila á hótelmarkaðinn,“ segir Valdimar.

Eins og kunnugt er hefur fjárfesting í gistiþjónustu ekki mætt eftirspurn, sem endurspeglast í því að nýting hótelherbergja er með hæsta móti á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og gisting orðin ein sú dýrasta á Norðurlöndunum. Jafnframt hefur það blásið lífi í Airbnb markaðinn hér á landi. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim