Enn sem komið er, er einungis ein stórverslun á Íslandi sem selur lífrænt ræktað kjúklingakjöt. Það er kjúklingar sem ekki eru ræktaðir við hefðbundna verksmiðjuframleiðslu. Slíkir fuglar eru ekki ræktaðir á Íslandi og er kjötið flutt inn frá Danmörku.

Umræðan um verksmiðjubúskap hefur aukist að undanförnu eftir að starfsmenn á kjúklingabúum lýstu aðstæðum í útvarpsþættinum Harmageddon og á Facebook . Þá ræddu Sif Traustadóttir, fyrrverandi eftirlitsdýralæknir, og Guðný Níelsen, talsmaður Velbú, um aðbúnað dýra í þætti Gísla Marteins Baldurssonar á RÚV á dögunum.

Fjarðarkaup í Hafnarfirði selur fugla sem INNES heildverslun flytur inn frá Danmörku. Sveinn Sigurbergsson, verslunarstjóri í Fjarðarkaupum segist hafa ákveðið að taka fuglana í sölu eftir að félagar í Velbú höfðu samband við sig. „Ég heyrði að það var spenningur fyrir þessu,“ segir hann og vísar þar í málflutning Velbús. Engu að síður virðist enginn annar smásöluaðili hafa verið tilbúinn til að sinna þessu á þeim tíma.

„Ég fór þá að leita að samstarfsaðila. Við erum ekki í eigin innflutningi. INNES heildverslun tók mjög vel í þá beiðni að skoða þetta með mér,“ segir hann og bætir við að það hafi þurft að flytja inn lágmark 1,5 tonn í hverri sendingu. Fyrsta sending hafi komið í haust hún hafi selst og önnur sending því komið rétt eftir áramót. Það hafi þvi farið ágætlega af stað. „Þau fréttu af þessu hjá Lifandi markaði og hafa verið að kaupa þetta af mér,“ segir Sveinn. Nú er búið að panta í þriðja skipti og sú pöntun kemur eftir mánuð.

Hann telur að sú umræða sem er farin af stað um lifræna ræktun leiði til þess að fleiri fari í að selja þessa vöru. Hann segist raunar vita að fleiri smásöluaðilar hafi spurst fyrir um slíka vöru hjá INNES. „Ég get auðvitað ekkert sett mig upp á móti því en það er gaman að hafa riðið á vaðið með þetta,“ segir Sveinn. Hann segir klárt mál að Fjarðakaup muni halda áfram á þessari braut.