Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ, Samtaka verslunar og þjónustu hefur áhyggjur af því að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Haga og Lyfju sé ávísun á það sem koma skuli í öðrum sambærilegum málum sem eru á borði eftirlitsins.

„Þróunin á markaðinum er svo gífurlega hröð. Samkeppniseftirlitið má því hafa sig allt við ef það ætlar að fylgjast með henni,“ segir Andrés í samtali við Fréttablaðið . „Það er afskaplega hætt við því að forsendur sem liggja fyrir ákvörðun sem er tekin á ákveðnum tímapunkti verði orðnar úreltar skömmu síðar. Það er stóra áhyggjuefnið.“

Eftir að úrskurða í fleiri stórum sameiningarmálum

Samkeppniseftirlitið á eftir að úrskurða um fyrirhuguð kaup N1 á Festi og kaup Haga á Olís, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stöðvaði stofnunin kaup Haga á Lyfju sem er í eigu ríkisins.

Bendir Andrés á að það hafi aldrei gerst áður að tveir alþjóðlegir risar komi á nánast sama tíma inn á hinn agnarsmáa íslenska markað og vísar hann þar til komu Costco í vor og H&M fatakeðjunnar í haust.

Skylda yfirvalda að fylgjast með þróuninni

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um segir Andrés að stofnunin hafi ekki tekið inn í dæmið markaðshlutdeild þessara stóru aðila á markaðnum.„Það þarf ekki mikinn speking til þess að sjá að innkoma þessara risa hlýtur að hafa mikil áhrif á umgjörð greinarinnar,“ segir Andrés sem segir eðlilegt að verslanir sem séu fyrir á markaðnum reyni að bregðast við þessari breyttu stöðu, til dæmis í sameiningarátt.

„Við gjörbreyttar kringumstæður leita verslanir auðvitað leiða til að ná fram eins mikilli hagræðingu og hægt er.“ Segir hann ekkert benda til þess að stofnunin hafi tekið tillit til áhrifanna af komu Costco í ákvörðun sinni í máli Haga og Lyfju. „Eftirlitið verður að skoða gaumgæfilega hvaða áhrif nýir stórir aðilar hafa á okkar litla markað. Það verður að fylgjast með þróuninni á hverjum tíma. Það er beinlínis skylda samkeppnisyfirvalda.“