Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir tillögur Landbúnaðarráðherra til að leysa bráðavanda sauðfjárbænda muni auka framleiðsluna vegna þess hve seint þær koma. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun gagnrýndi Sigurður Ingi Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins tillögurnar einnig og sagði að flokksmenn myndu ekki sætta sig við byggðaröskun.

Katrín segist undrast hve óljósar tillögurnar eru, miðað við að málið hafi verið á borði ráðherrans síðan í lok marsmánuðar að því er RÚV greinir frá.

„Auðvitað er ég hissa á því að sjá að það liggur ekki fyrir ennþá greining á birgðastöðu sem hefur verið kallað eftir. Þessu fylgir heldur ekki greining á áhrifum þeirra á byggðir landsins. Tillögurnar gera ráð fyrir fjármunum sem renni til fækkunar bænda,“ segir Katrín sem hefur áhyggjur af kolefnishlutleysi aðgerðanna.

„Þær gera ekki ráð fyrir eða það eru ekki eyrnamerktir fjármunir í raunverulegar breytingar eða framtíðarsýn fyrir íslenskan sauðfjárbúskap. Það er talað um að það sé stefnt að kolefnishlutleysi, sem er mjög mikilvægt fyrir íslenskan sauðfjárbúskap en það er ekki króna merkt í það og ekki króna merkt í nýsköpun.“

Katrín segir þvert á það að draga úr kjötfjallinu sem sé ástæða vandans muni aðgerðirnar stækka það.

„Fjármunirnir sem um er að ræða, þeim á að verja til að fækka bændum en í raun koma þeir of seint því þessi biðleikur ráðherrans mun stækka kjötfjallið því við erum komin á þann stað í árinu að þetta mun auka framleiðsluna til að byrja með án þess að framtíðarsýn liggi fyrir.“