Fiskur var í hávegum hafður í Evrópu á miðöldum, enda áttu kaþólskir íbúar þar að neita sér um kjöt ríflega þriðjung ársins.

Nóg virtist vera af fiski í sjó, vötnum og ám, en í kringum árið 1000 tóku menn að veiða fisk í mun meira mæli en áður og lífleg viðskipti hófust með gullið úr sjónum. Smám saman urðu menn varir við að sjórinn og vötnin gáfu ekki endalaust af sér.

Árið 1289 sá Filippus 4. Frakkakonungur sig tilneyddan til að gefa út tilskipun til að takmarka fiskveiðar. Hann velktist ekki í vafa um að sökin lægi hjá þeim sem veiddu fiskinn.

„Hvergi á vatnasvæðum í ríki voru, stórum jafnt sem smáum, er nokkuð að hafa vegna illsku veiðimanna,“ segir í tilskipuninni. Vegna þess hve fiskurinn var orðinn torfenginn voru fiskveiðar orðnar „miklu kostnaðarsamari en áður, sem hefur mikið tjón í för með sér fyrir ríka jafnt sem fátæka í ríki voru.“

Rithöfundurinn Lorraine Boisseneault fjallar um þessi mál í grein í tímaritinu The Atlantic . Hér er byggt á því sem hún skrifar.

Hún segir að umhverfisbreytingar, stækkun borga og ofveiði hafi sett allt á annan endann í samfélögum miðalda sem reiddu sig á fiskveiðar víða í Evrópu.

Styttri þorskar
Hún vitnar einnig í fornleifafræðingin James Barrett, sem hefur gert rannsóknir á þorskafla á miðöldum. Í grein eftir hann sem birt var í tímaritinu Journal of Fish Biology í vetur segir Barrett að á 11. og 12. öld hafi þorskur sem veiddist í Norðursjó almennt verið lengri en 80 sentimetrar, en þegar komið var fram á 13. öld var meðallengdin komin niður í 50 til 80 sentimetra, en í dag sé þorskur sem þar veiðist reyndar ekki nema 30 til 50 sentimetra langur að meðaltali.

Barret segir að ofveiðin hafi byrjað samfara mannfjölgun, stækkun borga, nýrri siglingatækni og vaxandi viðskiptum. Þegar veiði í vötnum og ám minnkaði tók fólk að veiða meira úr sjó, og áhrifin létu ekki á sér standa.

Fiskurinn var ákaflega eftirsótt vara á miðöldum og Boisseneault greinir frá því að þegar fiskurinn varð torfengnari hafi kokkar jafnvel verið farnir að gera tilraunir með að dulbúa kjöt sem fisk.

Ekki síst þótti mikilvægt að geta boðið upp á styrju, en sá fiskur var orðinn svo fágætur í Englandi og Frakklandi að konungar einir áttu rétt á að snæða þá dýrmætu fæðu.

„Að minnsta kosti sex matreiðslubækur frá þessu tímabili hafa að geyma uppskriftir að því að breyta kálfakjöti í falska styrju handa auðugum lávörðum og hefðarkonum,“ skrifar Boisseneault.

Hún vitnar einnig í sagnfræðinginn Richard Hoffmann, sem hefur rakið sögu fiskneyslu í Evrópu. Hann bendir á að þegar fiskurinn fór að verða af skornum skammti hafi sögur um ofgnótt fyrri tíma stundum orðið ýkjukenndar.

Ein sagan var sú að svo mikið hafi verið um lax og styrju í ám og vötnum á miðöldum að gera þurfti samninga um að sú fæða yrði ekki á borðum nema nokkrum sinnum í viku.