Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar, upplýsingasíðu á vegum Ferðamálastofu, voru í desember síðastliðinn 4.553 íbúðir og 2.111 sérherbergi í boði í skammtímagistingu á vegum Airbnb á Íslandi. Þegar mest lét í sumar voru íbúðirnar hins vegar 5.628 og herbergin 2.655, sem er það hæðsta sem mælst hefur, en tölur mælaborðsins ná aftur til 2015.

Í desember 2017 námu íbúðirnar hins vegar 4.427 og sérherbergin 1.976 en hápunktur ársins 2017, sem einnig var júlímánuður, var nokkru lægri en í fyrra, eða 5.043 íbúðir og 2.341 sérherbergi. Þetta sýnir að yfir háannatímann jókst framboð heillra íbúða á milli ára um 11,6%.

Ef hins vegar eru eingöngu skoðaðar tölur fyrir höfuðborgarsvæðið sést eilítil lækkun milli áranna 2017 og 2018, þannig fór desembermánuður úr 2.928 íbúðum árið 2017 í 2.883 og sérherbergin úr 904 í 819.

Þetta rímar við orð Sigurðar G. Hafstað fagstjóra hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í Viðskiptablaðinu um að átaksverkefni stjórnvalda við að stemma stigu við ólöglegri skammtímaleigu væri að skila sér í bæði meiri skráningum og minna framboði íbúða í leigu.  Síðan verkefnið hófst síðasta sumar hafa 43 aðilar þegar verið sektaðir fyrir 71 milljón krónur .

Hins vegar fjölgaði íbúðunum sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu í júlímánuði hvort ár, úr 3.254 árið 2017 í 3.457 árið 2018 meðan sérherbergjunum fækkað, úr 1.067 í 987. Nemur fjölgun íbúða í boði í skammtímaleigu yfir háannatímann á höfuðborgarsvæðinu því 6,2%, sem er nærri helmingi minni fjölgun en á landinu öllu.