Flugvélaframleiðandinn Airbus sem varð til við samruna stærstu flugvélaframleiðslufyrirtækjanna í Frakklandi, Þýskalandi og Spáni árið 2000 sameinast loks í eitt fyrirtæki, Airbus Group SE.

Með sameiningu allra deilda fyrirtækisins sem framleiðir þotur, geimferðatækni, þyrlur, gervihnetti, eldflaugar og hernaðartækni, freistar forstjóri þess, Tom Enders að ná fram auknum sparnaði og flýta ákvörðunarferlið.

Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur lækkað um 0,88% í dag en á árinu hefur það lækkað um 15%.

Lengi með tvo forstjóra og höfuðstöðvar

Fyrirtækið hefur löngum haft mjög dreift skipulag, lengi framan af var það með tvær höfuðstöðvar og tvo forstjóra sem endurspeglaði að hér var fyrst og fremst að ræða samstarfsverkefni milli Þjóðverja og Frakka.

Jafnvel eftir að fyrirtækið varð samtvinnaðra hefur sá hluti þess sem séð hefur um framleiðslu á flugvélum verið bæði langstærstur og haft eigin stjórnkerfi og skipulag.

Eyðir tvíverknaði

„Sameining Airbus Group og Airbus ryður brautina fyrir umbótum á skipulaginu, einfaldar stjórnkerfi þess og eyðir tvíverknaði til stuðnings við aukna hagkvæmni, á sama tíma og það ýtir undir frekari samþættingu fyrirtækisins í heild,“ segir Enders.

Ekki hefur komið fram hjá fyrirtækinu hvaða áhrif þetta mun hafa á starfsmannahald, þó forstjórinn hafi sagt í minnisblaði til allra 137 þúsund starfsmanna fyrirtækisins að þetta muni hafa einhver áhrif.

Minnkandi sala

Fyrirtækið neyðist til að draga úr kostnaði vegna minnkandi sölu, sem leitt hefur til þess að fyrirtækið hefur þurft að draga úr framleiðslu á A380 ofurjumbóþotunni og endurskoða þyrluframleiðslu fyrirtækisins.

Þó hefur forstjórinn sagt að sameiningin muni ekki hafa jafnmikil áhrif og Power8 verkefnið sem hafi sparað 2,5 milljarða evra árlega, eða sem samsvarar 287 milljörðum króna, með niðurskurði um 8 þúsund starfa.

Fabrice Bregier verður framkvæmdastjóri hins sameinaða fyrirtækis, og þá næstráðandi við Tom Enders, á sama tíma og hann mun halda stöðu sinni sem æðsti stjórnandi aðalflugvélaframleiðsluhlutans sem verður endurnefnt Airbus commercial Aircraft. Sá hluti fyrirtækisins halar inn tveim þriðju af tekjum þess.