Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Páli Heimissyni, fyrrv. starfsmanni flokkahóp íhaldsmanna í Norðurlandaráði, fyrir um 19,4 milljóna króna umboðssvik.

Meint umboðssvik Páls áttu sér stað á árunum 2009 – 2011. Páll var sem fyrr segir starfsmaður flokkahóp íhaldsmanna í Norðurlandaráði og hafði aðstöðu á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins. Páli er gert að sök að hafa misnotað aðstöðu sína þegar hann í rúmlega 320 skipti notaði kreditkort Sjálfstæðisflokksins til úttekta á reiðufé og til kaupa á vörum og þjónustu.

Til að útskýra málið nánar þá hafði Páll undir höndum kreditkort og var, sem starfsmanni fyrrnefnds flokkahóps, ætlað að nota það til að standa straum af kostnaði vegna starfa sinna fyrir hópinn. Þar sem flokkahópurinn er ekki lögaðili var kreditkortið skráð á kennitölu Sjálfstæðisflokksins. Það voru síðan starfsmenn á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins sem komu upp um málið og kærðu til lögreglu. Rétt er að taka fram að Páll var ekki starfsmaður Sjálfstæðisflokksins þó hann hefði þar aðstöðu.

Ákæruskjalið, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er 10 blaðsíður að lengd en níu af þeim tíu blaðsíðum innihalda lista yfir færslur af fyrrnefndu kreditkorti. Í flestum tilvikum er um að ræða stórar úttektir á reiðufé úr hraðbanka, kaup á flugmiðum og hótelgistingu. Þá er einnig að finna minni upphæðir fyrir veitingum, fatnaði og fleira. Óheimilar úttektir á reiðufé nema samtals um 12,4 milljónum króna, óheimil kaup á vörum og þjónustu nema um 6,9 milljónum króna en við þetta bætist síðan kostnaður vegna hvoru tveggja.

Samkvæmt ákæruskjalinu er Páll nú með lögheimili í Rúmeníu.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið nú í kvöld að búið væri að ákæra Pál fyrir hin meintu umboðssvik.

„Ég fagna því að málið sé nú komið til kasta dómstóla og þar með í réttum farvegi,“ sagði Jónmundur.