Bjarni Már Gylfason, nýráðinn upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, þekkir vel til áliðnaðarins en hann sinnti sameiginlegu starfi álframleiðenda innan SI áður en Samtök álframleiðenda voru formlega stofnuð árið 2010.

„Svona iðnaður þarf auðvitað að minna á hvað hann gerir vel,“ segir Bjarni Már. „Enda má ekki gleyma því að tæpur fjórðungur af útflutningstekjum þjóðarinnar kemur af því að nýta orku landsins til iðnaðarframleiðslu.“

Bjarni Már er menntaður hagfræðingur en hann hóf starfsferil sinn í blaðamennsku, fyrst hjá DV, m.a. undir ritstjórn Óla Björns Kárasonar og svo yfir til Viðskiptablaðsins undir ritstjórn Ara Edwald. Síðan tók hann sig til og fór að kenna hagfræði í Verslunarskólanum að afloknu námi.

„Á þessum tíma voru allir vinir mínir og kunningar að fara inn í bankana,“ segir Bjarni Már. „En einhverra hluta vegna þurfti ég að gera eitthvað annað en allir hinir.“

Bjarni Már er kvæntur Jóhönnu Vernharðsdóttur viðskiptafræðingi og eiga þau fjögur börn á aldrinum 5 til 16 ára en utan þess að sinna fjölskyldunni fer mikið af frítíma hans í helsta áhugamálið.

„Ég er ákafur hjólreiðamaður, meira að segja formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur, en ég hef verið á bólakafi í þessu síðustu ár og keppi eins og brjálæðingur,“ segir Bjarni Már ákafur.

„Í desember var ég svo líklega meðal fyrstu Íslendinganna til að taka þátt í formlegri heimsmeistarakeppni í hjólreiðum, en þetta var heimsmeistaramót í Cyclocross í mínum aldursflokki, svona þrautakeppni í lokaðri, blandaðri braut af sandi, grasi, möl og svo þarf að hlaupa töluvert. Við fórum tveir félagarnir, en þó við séum kannski góðir á íslenskan mælikvarða eigum við töluvert langt í land til að jafnast á við þessa fyrrum atvinnumenn sem þarna voru, en þetta var ótrúleg upplifun.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .