Nýsmíðin Akurey AK 10 var sjósett hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbul í Tyrklandi í dag. Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, var um borð þegar skipinu var rennt á flot. Eiríkur verður skipstjóri á Akurey.

Akurey AK er nýsmíði nr. CS 48 hjá skipasmíðastöðinni Celiktrans í Istanbul Tyrklandi og er skipið annar ísfisktogarinn af þremur, sem smíðaður er hjá tyrknesku stöðinni fyrir HB Granda. Áður hafði Celikstrans smíðað uppsjávarskipin Venus NS og Víking AK fyrir félagið.

Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem hefur haft eftirlit með skipasmíðinni í Tyrklandi fyrir HB Granda, hófst smíði Akureyjar síðastliðinn vetur. Smíði ýmissa stálhluta eða svokallaðra blokka hófst um haustið 2015 en kjölur var formlega lagður að skipinu snemma árs 2016. Framdrifsbúnaður skipsins er kominn um borð ásamt spilum og fleiri hlutum. Hafist verður handa af fullum krafti við frágang á rafmagni, rörakerfum, íbúðum o.fl. nú eftir sjósetninguna.

Helstu stærðir skipsins eru sem hér segir:

Heildarlengd:  54.75 m.

Breidd:  13.50 m.

Særými u.þ.b. 1830 tonn.

Stærð á lest 815 rúmmetrar.

Stærð aðalvélar 1799 kW.

Þvermál skrúfu 3800 mm.

Klefar eru fyrir 17 manna áhöfn. Allir eru þeir eins manns nema einn sem er stærri.

,,Smíðahraði  þessa skips er talsvert meiri en á Engey RE, sem senn verður tilbúin til afhendingar, enda er um raðsmíði að ræða. Áætluð afhending á Akurey er á fyrri hluta ársins 2017. Öllum frágangi neðansjávar er lokið, eins og frágangi á botnstykkjum, skrúfubúnaði, stýri og fleiru. Þegar öllum frágangi um borð verður  lokið verður skipið klárt til reynslusiglingar,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson á vef HB Ganda.

Sjá fleiri myndir á vef HB Granda.