S if Jakobsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri en ákvað ung að flytja til Svíþjóðar og nema gullsmíði. Nú, tæpum 20 árum síðar, rekur hún margverðlaunað skartgripafyrirtæki undir eigin nafni og selur vörur sínar á yfir 1.000 stöðum í 19 löndum og segir sjálf að þetta sé aðeins byrjunin. Fyrirtækið sem keppir á einstaklega erfiðum markaði alþjóðatískunnar hefur að jafnaði stækkað um 35-40% milli ára og segir Sif það markmið sitt að vörumerkið Sif Jakobs Jewelry verði eitt af þeim þekktustu í heiminum.

Kaupmannahöfn var draumurinn

Getur þú sagt mér stuttlega frá þér og þínum bakgrunni?

„Ég er gullsmiður að mennt og lauk námi í Svíþjóð. Ég flutti upphaflega frá Íslandi árið 1997 til að fara að læra og er ekki ennþá komin heima þannig að ég er búin að vera ansi lengi í burtu. Gullsmíðanámið í Svíþjóð er venjulega fjögur ár en mér miðaði námið vel og fékk því undanþágu til að ljúka því á þremur árum. Ég var því gjarnan mætt fyrsta á morgnana og svo lá við að ég lokaði skólanum síðust á kvöldin.

Strax eftir námið hélt ég til Kaupmannahafnar, sem var alltaf draumaborgin mín, og hóf störf fyrir danskt/ítalskt fyrirtæki sem hannaði og framleiddi skartgripi á Ítalíu og seldi víðs vegar um heiminn. Reyndar ekki í Danmörku en alls staðar annars staðar þannig að ég fór að ferðast mjög mikið um heiminn, gjarnan ein. Ég ferðaðist t.d. mikið um Asíu en auk þess seldi fyrirtækið einnig mikið af vörum í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Englandi og öðrum stóru löndum.

Ég var á fleygiferð út um allan heim og öðlaðist gríðarlega mikla reynslu á þessum árum en loks kom að því að ég vildi segja skilið við ferðalögin og festa almennilega rætur í Kaupmannahöfn. Á ferðalögunum hafði mér gefist mikill tími til að hugsa um hvað ég vildi gera í framtíðinni og að endingu ákvað ég að láta gamlan draum rætast.

Viðtalið við Sif Jakobsdóttur má lesa í fullri lengd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir hlekknum Tölublöð.