Neitunarvald – sem til stóð að fjármálaráðherra fengi yfir beitingu tiltekinna þjóðhagsvarúðartækja samkvæmt nýframlögðu frumvarpi vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins – verður fellt á brott samkvæmt tillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem hefur málið til meðferðar, í dag eða á morgun.

Þetta staðfesta Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, en tillagan verður lögð fram í samráði við og með stuðningi forsætis- og fjármálaráðherra. „Þetta er bara enn eitt skrefið í að tryggja sjálfstæði Seðlabankans og trúverðugleika.“ segir Óli Björn.

Neitunarvaldinu var mótmælt í umsögnum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans um frumvarpið, og hefur verið mikið rætt innan nefndarinnar. Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins lýstu áhyggjum af því að nauðsynlegri en óvinsælli beitingu tækjanna gæti verið synjað staðfestingar ráðherra vegna pólitískra skammtímahagsmuna og þrýstings.

Ásgeir Jónsson, formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar, sem skilaði niðurstöðum sínum í fyrra, segir ákvæðið ekki hafa verið í anda þess sem tillögur starfshópsins lögðu upp með. „Hugsunin með skýrslunni okkar var að öll ákvörðunartaka um þjóðhagsvarúð væri fram í nefnd sem í sætu utanaðkomandi sérfræðingar. Þar væri fagleg umræða og farvegur til að taka ákvarðanir, og það lægi fyrir með opinberum hætti hvernig það væri gert.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .