*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 9. desember 2018 16:45

Ákveðnari fjárfestingarstefna

Forstjóri TM segir að ekki hafi orðið breytingar á fjárfestingastefnu félagsins þó samsetning fjárfestinga hafi breyst.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Spurður hvað aðgreini TM frá hinum tryggingafélögunum fyrir fjárfestum segir Sigurður að aðalaðgreiningin felist í ákveðnari fjárfestingarstefnu. „Við höfum byggt á því að við erum með áhættuvilja og markmið um það að við séum með 50% meira eigið fé heldur en við þurfum samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.

Ástæða þess að við erum að biðja um 50% meira eigið fé en við þurfum er sú að við teljum okkur vera góð í því að ávaxta fé og það er það sem við bjóðum fjárfestum. Við viljum vera með rúmt eigið fé til þess að geta nýtt okkur aðstæður á markaði sem fagfjárfestir. Þess vegna er fjárfestingarstefnan okkar áhættusæknari en hinna félaganna og það er aðgreiningin. Við höfum verið með stærri hlut í hlutabréfum og við höfum verið með miklu meira í óskráðum hlutabréfum heldur en samkeppnin sem hefur skilað sér í umtalsvert betri ávöxtun frá árinu 2010.“

Hafa orðið einhverjar breytingar á fjárfestingarstefnunni eða samsetningu fjárfestinga á síðustu misserum?

„Það hafa ekki orðið breytingar á fjárfestingarstefnunni en samsetning fjárfestinganna hefur breyst. Við erum mjög aktífur fjárfestir í þeim skilningi að við hreyfum okkur þegar við höfum þá skoðun. Við höfum sem dæmi verið að auka verðtryggingarhlutfall í skuldabréfasafninu mjög mikið á árinu. Það hefur í raun snúist alveg við úr því að vera með meirihlutann í óverðtryggðu í að vera með meirihlutann í verðtryggðu.

Við höfum líka minnkað stöðuna í óskráðu hlutabréfunum og þar telur stærst breytingin sem átti sér stað þegar N1 keypti Festi þar sem við áttum um 5% hlut í SF V sem var eigandi Festar. Svo erum við búnir að vera að vinna að þessu í dálítinn tíma og hefur gengið vel. Eignasafnið hefur stækkað því að eignirnar hafa hækkað í verði. Við t.d. seldum tæplega helminginn af bréfunum sem við áttum í Arnarlaxi. Við höfum á síðustu tveimur árum verið að draga úr hluta óskráðu fjárfestinganna en það skýrist líka af því að maður leggur upp í svona fjárfestingar með 3-5 ára plan og nú eru þau ár liðin.“

Mörg komin á áhugaverðan stað

Nú hefur töluverður órói verið á fjármálamörkuðum síðustu misseri samfara minnkandi veltu á mörkuðum, hækkandi ávöxtunarkröfu, auknum verðbólguvæntingum, óvissu um komandi kjarasamninga og óvissu í ferðaþjónustu þá sérstaklega vegna málefna Wow air. Hvernig blasa aðstæður á mörkuðum við þér eins og þær eru í dag?

„Það eru einkum þessir tveir óvissuþættir sem hafa gert það að verkum að fjárfestar hafa haldið að sér höndum. Staðan á Wow air er vonandi að skýrast núna með innkomu Indigo Partners í hluthafahópinn. Við sáum kröftug viðbrögð í kauphöllinni samstundis og þessi viðskipti voru tilkynnt. Ef maður horfir á rekstur fyrirtækjanna í kauphöllinni, það sjóðsstreymi sem þau eru að búa til og svo verðlagningu þeirra, þá eru mörg félög komin á áhugaverðan stað svona verðlagningarlega séð. Ég held að um leið og óvissunni um kjarasamningana og ferðamannaiðnaðinn verður létt þá muni mörg félög eiga talsvert inni. Innflæðishöftin gera það svo að verkum að skuldabréfamarkaðurinn er ekki að njóta innkomu erlendra aðila í eins miklum mæli og mögulegt væri.

Þetta gerir það að verkum að fjármögnunarkostnaður fyrirtækjanna er óþarflega hár. Þetta hefur auðvitað áhrif á verðmæti þeirra. Heilt yfir er ég þó nokkuð bjartsýnn að ef okkur tekst að lenda hér sæmilega skynsamlegum kjarasamningum þá eru allar aðstæður hér nokkuð góðar. Fyrirtækin skulda ekki mikið og erlend staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri. Ég er því sannfærður um að það leynast víða góð kauptækifæri í kauphöllinni.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.