Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael á grundvelli mannréttindasjónarmiða sé ekki ólögmæt. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti segir að ákvörðun um að sniðganga ísraelska birgja sé í andstöðu við landslög, alþjóðasáttmála, og utanríkisstefnu Íslands.

Fór fram athugun á lögmæti þessarar ákvörðunar áður en hún var tekin af borgarstjórn, hvort hún kynni að vera andstæð lögum?

„Já, það var gert," segir Dagur B. Eggertsson.

Af hverjum?

„Innkaupasérfræðingum á skrifstofu borgarlögmanns," segir hann.

Var það mat þeirra að þetta myndi standast lög?

„Já, það er beinlínis gert ráð fyrir því í innkaupastefnu borgarinnar , sem byggir á lögum, að kaupverð sé ekki eina [ákvörðunarástæða um kaup, innsk. blm.] Það má taka mið af gæðum, umhverfissjónarmiðum og mannréttindum. Það eru fjöldi dómafordæma og úrskurða sem staðfesta rétt manna til þess að beita slíkum sjónarmiðum í innkaupum.„

Myndir þú þá telja að það sem kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu sé rangt?

„Við vissum líka af því, og það kom skýrt fram í umræðum í borgarstjórn, að þegar um þjónustukaup er að ræða þá eru tilteknir alþjóðasamningar sem Ísrael er aðili að, og þarf að virða, og þess vegna var verið að tala um vörukaup í þessu sambandi. En það var búið að fara sæmilega yfir þetta en það er sjálfsagt að lögfræðingarnir okkar og þeirra hittist," segir borgarstjóri.

Sérðu fyrir þér að það muni gerast?

„Eigum við ekki að gera ráð fyrir því."

Bæði utanríkis og iðnaðarráðherra hafa sagt í dag að íslenskir viðskiptahagsmunir hafi beðið skaða af þessari ákvörðun. Var það eitthvað sem þið sáuð fyrir þegar þið tókuð hana?

„Nei, mér finnst það líka býsna stór orð. Ég dáðist að mörgu leyti að framgöngu utanríkisráðherra í umræðunni um viðskiptabann á Rússa nýlega, sem sannarlega skaða viðskiptahgasmuni, reyndar gríðarlega. Þar sagði hann að það væri ákveðið prinsipp í alþjóðakerfinu, eins og virðing við alþjóðalög, sem að lítil ríki eins og Ísland þyrftu að standa vörð um, því við myndum að mörgu leyti byggja tilvist okkar á því. Mannréttindi eru slíkt prinsipp."

Utanríkisráðuneyti vísaði í sinni tilkynningu til laga um opinber innkaup. Myndir þú segja að innkaupastefna Reykjavíkurborgar væri rétthærri heldur en þau lög?

„Nei, hún byggir á þeim lögum."

Þannig að það er ágreiningur um túlkun þeirra laga á milli utanríkisráðuneytisins og borgarinnar?

„Væntanlega eru þeir að gera ráð fyrir því að við munum beita ólöglegri mismunun. En það sem við erum að tala um er að í þeim tilvikum sem að vörur tengjast mannréttindabrotum, og þar berast böndin að ólöglegum landtökubyggðum, að þá séu þær sniðgengnar og að það sé ekki ólögleg mismunun."

En óháð því hvert efni eða tilgangur þessarar ákvörðunar er, er eðlilegt að þínu mati að taka svona ákvarðanir í flýti eða að tengslum við að einhver sé að hætta í borgarstjórn?

„Nei ég held að það sé nú líka ofsagt, þó að þetta hafi verið tillaga sem var samþykkt í tengslum við það þá er þetta búið að vera í umræðu ekki bara í Reykjavík, heldur í Kaupmannahöfn og öðrum höfðuborgum Norðurlanda. Fyrir ári síðan þá skoruðu til dæmis leiðtogi Jafnaðarmanna, núverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Störe, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og Árni Páll Árnason á að komið yrði á friði í Mið-Austurlöndum, þá skoruðu þeir sérstaklega á fyrirtæki að beina ekki viðskiptum að fyrirtækjum sem væru á herteknu svæðunum og að beita sér fyrir því sama alþjóðlega. Þannig að þessi umræða er ekki ný og ekki hægt að láta eins og hún sé það."

Það hefur komið fram í umræðum að fyrir ísraelsk fyrirtæki starfi fjölmargir Palestínumenn. Skiptir það einhverju máli í þínum huga?

„Já, þeim sjónarmiðum er hreyft. Auðvitað er það engin óskastaða að sniðganga vörur frá einum eða neinum. Það var ekki gert nema því allt alþjóðasamfélagið er svolítið varnarlaust og valdalítið þegar kemur að því að knýja á um frið og betra líf fyrir alla á þessu svæði. Þannig að sniðganga er kannski veik, við getum bara sagt það. Kannski fyrst og fremst táknræn aðgerð, sem er samt til að undirstrika sjónarmið mannréttinda."

Kemur til greina af þinni hálfu að draga þessa ákvörðun til baka?

„Það hefur ekki verið rætt hjá okkur. Við eigum hins vegar útfærsluna eftir. Ég tek eftir því á sumum viðbrögðunum að þetta hefur verið kallað viðskiptabann, sem það er ekki. Þetta hefur verið kallað gyðingahatur, sem það er sannanlega ekki. Því ég held að bæði hér í borgarstjórn og bara allir Íslendingar styðji tveggja ríkja lausn, virði tilverurétt bæði Íslraels og Palestínuríkis og auðvitað standa vörð um mannréttindi allssstaðar í heiminum."

Að hvaða leyti er þessi tillaga frábrugðin viðskiptabanni? Það segir í tillögunni að ísraelskar vörur verði sniðgengnar.

„Já, með vísan til innkaupastefnunnar. Þegar við erum að kaupa vörur, ekki til dæmis þjónustu því það útiloka alþjóðasamningar, þá áskiljum við okkur í innkaupastefnunni rétt til að taka mið af mannréttindasjónarmiðum. Við munum ekki kaupa frá þessum svæðum, ekki þar sem framleiðslan eða fyrirtækin tengjast svæðum eða mannréttindabrotum beint. Þetta er í raun kannski svolítið sambærilegt við það að ákveða að kaupa ekki fatnað frá verksmiðjum þar sem börn eru látin vinna."

Þannig að innkaupadeildinni verður eftirlátið að meta hvaða fyritæki uppfylla þessi skilyrði, ef svo má segja?

„Já ég myndi ætla það, en útfærslan er eftir," segir borgarstjóri að lokum.