Gera má ráð fyrir því að eftir helgi verði tilkynnt um skráningu Eimskips á markað. Viðskiptablaðið greindi frá því 18. apríl sl. að undirbúningsferli að skráningu félagsins væri á lokastigi.

Þá ríkti þónokkur togstreita á milli Straums og Íslandsbanka, sem saman munu sjá um skráningarferlið, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur þó verið gengið frá samningum og hlutverkaskiptingu þeirra.

Þá hefur tæknileg úrvinnsla annarra aðila, s.s. verðmat og fleira, tafið ferlið skv. heimildum Viðskiptablaðsins. Ekki hefur verið vikið af þeirri stefnu að skrá félagið á markað í haust en lokaákvörðun um næstu skref verður að öllum líkindum tekin á stjórnarfundi hjá Eimskip á morgun.