Þó að margt megi lesa úr upplýsingum um greiðslu tekjuskatts í álagningarskrám ríkisskattstjóra þá er ýmislegt sem skekkir myndina. Ekki er sama með hvaða hætti tekjur eru fengnar og geta þær því birst á ýmsan máta í skattgreiðslum. Til dæmis fá margir arðgreiðslur úr einkahlutafélögum og þegar um samlagsfélög er að ræða, eins og oft er raunin á lögmannsstofum, greiðir félagið skatt af hagnaði en ekki einstaklingarnir.

Það á því oft við um sérfræðinga – til dæmis lögfræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga og endurskoðendur – að tekjur þeirra eru mun hærri en lesa má úr álagningarskrám. „Það er rétt að álykta að þetta geti breytt þeirri mynd sem lesa má úr álagningarskrám,“ segir Vala Valtýsdóttir, yfirmaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. „Til dæmis er einungis hagnaður í hlutafélögum skattlagður við útgreiðslu til eigenda en ekki þegar slíkur hagnaður er úthlutaður eigendum í samlags- og sameignarfélögum,“ segir Vala. Hún minnir jafnframt á að þegar fólk skili ekki skattframtölum á réttum tíma þá sé þeim áætlaður skattur og sé það því alltaf ákveðin skekkja í útreikningum út frá álagningarskrá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.