Þýski smásölurisinn Aldi greindi frá því á sunnudag að fyrirtækið hyggst fjárfesta 3,4 milljörðum dollara til að fjölga verslunum sínum í Bandaríkjunum í 2.500 verslanir fyrir árið 2022. Er tilkynningin bera merki þess að aukinn harka sé að færast í samkeppni á bandarískum matvörumarkaði. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Aldi rekur í dag 1.600 verslanir í Bandaríkjunum og greindu fyrr á þessu ári frá því að þeir hyggjast bæta við verslunum fyrir árslok 2018 auk þess sem þeir ætla að endurhanna 1.300 verslanir fyrir 1,6 milljarða dollara.

Aldi er ekki eina þýska smásölufyrirtækið sem hyggst stækka við sig á Bandaríkjamarkaði en  lágvöruverslunin Lidl hyggst opna 100 verslanir í Bandaríkjunum þann 15 júní næstkomandi. Gaf Lidl það út í maí síðastliðnum að fyrirtækið hyggist bjóða upp á allt að helmingi lægra vöruverð en keppinautar þeirra.

Stærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, Wal-Mart hefur undanfarið verið að gera prófanir á lægra verðlagi í 11 ríkjum og ætlar fyrirtækið að fjárfesta um 6 milljörðum dollara til að vinna aftur stöðu sína sem leiðtogi meðal lágvöruverslana í Bandaríkjunum.

Eru stækkunaráform þýsku smásölufyrirtækjanna talin líkleg til þess að gera samkeppni á smásölumarkaði í Bandaríkjunum en harðari en hingað til. Frá árinu 2014 hafa 18 bandarísk smásölufyrirtæki orðið gjaldþrota.