„Við fáum aldrei betri tíma til að afnema þessi höft en núna,“ sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá þessu.

Að sögn Más eru efnahagsaðstæður varðandi afnám gjaldeyrishaftanna mjög hagstæðar hvað varðaði viðskiptajöfnuð, vaxtastöðu og gjaldeyrisforða. Þó væri betra að gengi krónunnar væri lægra en hærra - þótt aðrar breytur vægju upp á móti styrkleika krónunnar.

Efnahags- og viðskiptanefndin ræddi nánar við Má um stöðu þjóðarinnar hvað verðbólgu og ástand efnahagsmála á fundinum sem haldinn var í dag. Þá sagði hann meðal annars að hætta væri á því að verðbólga ykist á næstu misserum. Bullandi gangur sé á atvinnulífinu og hætta á að hagkerfið ofhitni.