Nasdaq kauphöllin í Stokkhólmi, systurkauphöll íslensku kauphallarinnar hefur tilkynnt um 319. fyrirtækið sem skráð hefur verið á aðalmarkað sinn, með tilkomu leikjafyrirtækisins Cherry í gær á markaðinn.

Fyrra met hafði verið sett 28. júní 2001 þegar 318 félög voru skráð. Jafnframt fagnaði Nasdaq kauphallarkeðjan á Norðurlöndunum að 300 fyrirtæki væru nú skráð á First North vaxtamarkaðinn fyrir smá og meðalstór fyrirtæki í löndunum fjórum, það er Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og á Íslandi.

Dæmi um styrk norræna markaðarins

„Þetta eru frábær tímamót og annað dæmi um styrk norræna hlutabréfamarkaðarins,” sagði Lauri Rosendahl, forstjóri Nasdaq Stockholm og Nasdaq Nordic í fréttatilkynningu frá kauphöllinni.

„Rannsóknir sýna að atvinnusköpun og tekjur fyrirtækja aukast töluvert eftir skráningu. Við búum einnig að öflugu umhverfi fjármálaráðgjafa sem og innlendum og erlendum fjárfestum, sem virkilega styðja við fyrirtæki sem fara á hlutabréfamarkað til að knýja áfram frekari vöxt.”

Fyrirtæki utan Norðurlanda komi á First North

Að auki fagnaði Nasdaq First North – evrópski vaxtarmarkaður Nasdaq fyrir smá og meðalstór fyrirtæki – tímamótum þegar þrjúhundruðasta fyrirtækið var boðið velkomið þann 19. október, en þá var félagið Global Gaming skráð í Stokkhólmi.

Nasdaq First North var sett á laggirnar árið 2006. Mikill fjöldi félaga hefur skráð sig á markaðinn undanfarin ár eða 183 frá 1. janúar 2015 (1.9 milljarða evra aflað í hlutafjárútboðum). „Nasdaq First North heldur áfram að vera leiðandi vettvangur fyrir smá og millistór fyrirtæki í Evrópu,” sagði Adam Kostyál, yfirmaður skráninga Nasdaq í Evrópu.

„Núverandi meðbyr á Norðurlöndunum, í samanburði við óvissu á öðrum svæðum, hefur skapað áhuga erlendra fjárfesta og ráðgjafa og það er ánægjulegt að núverandi áætlun hjá okkur gerir ráð fyrir að yfir 10% nýskráninga á næstunni verði fyrirtæki utan Norðurlandanna.

Um Nasdaq First North

Nasdaq First North er skilgreint sem markaðstorg fjármálagerninga (e. Multilateral Trading Facility) rekið af Nasdaq Nordic kauphöllunum (Nasdaq First North Denmark er skilgreint sem hliðarmarkaður). Markaðurinn hefur ekki lögbundinn sess sem skipulegur verðbréfamarkaður innan Evrópusambandsins.

Félög á Nasdaq First North lúta reglum Nasdaq First North en ekki þeim lagalegu kvöðum sem fylgja því að skrá fyrirtæki á skipulegan verðbréfamarkað. Áhættan við slíka fjárfestingu getur verið meiri en á Aðalmarkaði.

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) er leiðandi á alþjóðavísu í þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, kauphallartækni, eftirlits, skráninga, upplýsingaþjónustu og þjónustu við skráð fyrirtæki í sex heimsálfum. Nasdaq gerir viðskiptavinum sínum kleift að skipuleggja, hagræða og framkvæma framtíðarsýn sína í viðskiptum af öryggi, með margreyndri tækni sem veitir gagnsæi og innsýn í nútíma alþjóðlega fjármálamarkaði.

Nasdaq er frumkvöðull í rafrænum kauphallarviðskiptum, en tækni þess er notuð á yfir 90 mörkuðum í 50 löndum og knýr um það bil ein af hverjum 10 viðskiptum í heiminum. Nasdaq er heimili meira en 3,900 skráðra fyrirtækja að markaðsvirði yfir 12 billjón Bandaríkjadala.