Viðskiptaafgangur þjóðarbúsins við útlönd á þriðja ársfjórðungi var mun meiri en bæði greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka spáðu . Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær nam viðskiptaafgangurinn við útlönd 76,5 milljörðum króna og eignastaðan við útlönd var jákvæð um nálega 400 milljónir króna samkvæmt tölum Seðlabankans.

Hafði Arion banki spáð 64 milljarða króna afgangi, en bankinn segir það sem er umfram fyrst og fremst rekja til hugverkaútflutnings. Segja báðir bankarnir að horfur séu á ágætum viðskiptaafgangi af árinu sem heild sem og komandi ári og að eignir þjóðarbúsins umfram skuldir hafi aldrei verið meiri.

Spá mismiklum afgangi í ár

Íslandsbanki spáir því nú að afgangurinn verði svipaður og á síðasta ári þegar hann nam 87 milljörðum króna, m.a. vegna lækkandi olíuverðs og minni vaxtar í einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingum.

Arion banki bendir á að eftir uppfærslu á tölum fyrri ársfjórðunga ársins hafi fyrstu sex mánuðir ársins staðið nokkurn veginn á núlli. Viðskiptahallinn hafi verið 4,1 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi, sem var í fyrsta sinn frá árinu 2012, en meiri afgangur á öðrum fjórðungi.

Gerir Arion banki enn ráð fyrir að afgangurinn verði fyrir árið í heild 72 milljarðar króna sem er nokkru minni en spá Íslandsbanka og tölur síðasta árs, en segja þó að hann gæti verið ívið meiri vegna olíuverðs, gengis og utanríkisverslunar.

Útlendingar sendu 7 milljarða úr landi

Bendir Arion banki jafnframt á aukið vægi peningasendinga þeirra 43.400 erlendra einstaklinga sem lifa og starfa hér á landi, en þeir námu 6,8 milljörðum á þriðja ársfjórðungi. Það er þrátt fyrir að launagreiðslur til erlendra aðila hafi dregist saman milli ára.

Íslandsbanki bendir svo á að erlend eignastaða þjóðarbúsins hafi batnað um nærri 6% af vergri landsframleiðslu á milli ársfjórðunga. Þannig hafi fjármagnsliðurinn verið jákvæður um 86 milljarða króna, meðan gengisbreytingar hafi bætt stöðuna um 79 milljarða króna. Bæði vegna 4% gengislækkunar krónu og 4% verðhækkunar á erlendum mörkuðum.

Bendir Arion banki á að alls hafi erlenda staðan batnað um 162 milljarða á ársfjórðungnum, eða 5,9% af vergri landsframleiðslu og hrein staða þjóðarbúsins hafi verið jákvæð um 13,3% af landsframleiðslunni og aldrei betri.

Jafnframt segir bankinn að viðskiptakröfur erlendra aðila á innlenda hafi minnkað um 22 milljarða króna á ársfjórðungnum sem þýðir aukinn sparnað. Það sé mun jákvæðari ástæða fyrir veikingu krónu heldur en vegna viðskiptahalla. Spáir Íslandsbanki því að áfram verði viðskiptaafgangur á komandi fjórðungum.