Í allan vetur munu fimm flugfélög fljúga á milli Íslands og London.

Hefur aldrei áður verið jafnmikil samkeppni á einni flugleið frá Íslandi, en til samanburðar þá bjóða þrjú flugfélög upp á áætlunarferðir frá Oslóarflugvallar og Arlanda í Stokkhólmi til London. Þetta kemur fram á vef Túrista .

Mest 12 ferðir á dag

Ferðirnar frá þeim flugvöllum eru þó fleiri en frá Keflavíkurflugvelli, eða um 20 á dag, meðan þær verða flestar 12 á dag milli Keflavíkur og London.

Flestar ferðir eru farnar á fimmtudögum, en frá því í febrúar 2012 þegar einungis Iceland Express og Icelandair flugu á leiðinni hafa ferðirnar aukist úr 2,7 á dag í að meðaltali 9,6 á dag.

Íslensku flugfélögin með morgunflugið

Ferðalangar sem vilja leggja af stað snemma dags geta þó einungis valið milli Wow air sem flýgur af stað rétt rúmlega sex að morgni, en Icelandair flýgur rétt fyrir átta að morgni. Fleiri valkostir eru svo þegar líður á daginn, en á vef Túrista er birt yfirlit yfir flugtíma hvers flugfélags yfir hefðbundna viku.

Þau fimm flugfélög sem fljúga milli Keflavíkurflugvallar og einhverra flugvallanna við London, þeirra Heathrow, Gatwick, Standsted og Luton, eru auk íslensku flugfélaganna Wow air og Icelandair, easyJet, British Airways og Norwegian.