Skatttekjur Reykjavíkurborgar á hvern íbúa í Reykjavík námu um 700 þúsund krónum á árinu 2016, sem er um 50 þúsund krónum meira en var árið 2007 sem lengi hafði verið metár að því er Morgunblaðið greinir frá. Útreikningarnir miða við fast verðlag árið 2017 og miða við tekjur af útsvari, fasteignagjöldum og framlagi úr jöfnunarsjóði en það eru Samtök iðnaðarins sem gerðu útreikningana.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær mun bætast ofan á þessar tölur um 1,5 milljóna innviðagjald á hverja nýja 100 fermetra íbúð, sem Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI segir bætast við þegar miklar skatttekjur sveitarfélagsins.

„Í samanburði við önnur sveitarfélög er Reykjavík með háar tekjur af hverjum íbúa en samanburður yfir tíma sýnir að flest sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins voru með sögulega háar tekjur af íbúum á árinu 2016. Það skýtur því skökku við að Reykjavíkurborg bæti við innviðagjaldi sem jafnvel finnst ekki lagastoð fyrir,“ segir Sigurður sem hefur áhyggjur af hækkun fasteignaverðs í kjölfarið.

„Byggingarkostnaður fjölbýlishúss á 4-5 hæðum er um 340 þúsund krónur á fermetra samkvæmt reiknilíkani sem stuðst er við. Því er ljóst að 1,5 milljóna króna innviðagjald á hverja 100 fermetra hækkar byggingarkostnað fjölbýlis um 4-5%.“