Árið 2016 fæddust 4.034 börn á Ísland, sem er fækkun úr 4.129 börnum árið 2015. Helsti mælikvarði frjósemi, sem er barn á ævi hverrar konu, fór á síðasta ári niður í 1,75 barn, sem er lægsta frjósemi sem mælst hefur frá upphafi, en mælingar hófust árið 1853.

30,4% barna fæddust innan hjónabands hér á landi sem er lægsta hlutfall í Evrópu, en meðalaldur mæðra við fyrsta barn er lægri hér á landi, eða 27,7 heldur en meðaltal Evrópu.

Fleiri drengir en stúlkur fæðast

Næst lægst fór frjósemin árið 2015 þegar hún nam 1,81 barni að því er segir í frétt Hagstofunnar, en undanfarin áratug hefur frjósemi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu.

Á síðasta ári fæddust 2.042 drengir og 1.992 stúlkur, sem jafngildir 1.025 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Einna mest frjósemi í Evrópu

Frjósemi hér á landi hefur verið meðal þess mesta sem þekkst hefur í Evrópu á síðustu árum, en fyrir utan Frakkland þar sem frjósemin nemur 2,14 börnum á konu eru öll lönd Evrópu með undir 2 börnum á konu, en meðaltal Evrópusambandsins var 1,58 börn árið 2015.

Lægst var fæðingartíðnin árið 2015 í Portúgal þar sem það var 1,31, Kýpur 1,32 og Grikkland með 1,33.

Elstu mæðurnar á Ítalíu

Á sama tíma og frjósemin hefur minnkað hefur meðalaldur mæðra lækkað. Var meðalaldurinn undir 22 árum frá byrjun sjöunda áratugarins fram yfir árið 1980, en hann hefur hækkað frá miðjun níunda áratugnum og var hann 27,7 ár í fyrra.

Á sama tíma er meðalaldur mæðra 28,9 ár í ESB löndunum, þar af voru konur í Búlgaríu yngstar þegar þær eignuðust sitt fyrsta barn, eða 26,0 en elstar á Ítalíu, 30,8 ára.

Mæður yngstar á fyrri hluta 7. áratugarins

Algengasti barneignaaldurinn er á bilinu 25 til 29 ára, en fæddust 109 börn á hverjar 1.000 konur í fyrra á þessu tímabili.

Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu í fyrra var 6,5 börn á hverjar 1.000 konur en sú tíðni fór hæst á bilinu 1961 til 1965 þegar hún náði 84 börnum.

Fæst börn innan hjónabands en flest í sambúð

Einungis 30,4% barna á Íslandi fæddust innan hjónabands en auk þess fæddust 54% barna í óvígðri sambúð svo einungis 15,5% barna fæddust utan sambúðar eða hjónabands.

Á sama tíma fæddust 40% barna utan hjónabands árið 2015 í Evrópu, en næstólíklegast á eftir Íslandi var þá að barn fæðist utan hjónabands í Búlgaríu eða 58,6%, Slóveníu 57,9% og Noregi 55,9%. Á sama tíma fæðast einungis 8,8% barna í Grikklandi utan hjónabands og 2,8% í Tyrklandi.