*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 19. júní 2017 16:27

Aldrei minni vöxtur í kortaveltu

Vöxtur í kortaveltu erlendra ferðamanna hefur ekki verið minni síðan Rannsóknarsetur verslunarinnar hóf að taka saman gögn um kortaveltu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Erlend greiðslukortavelta nam 21,3 milljörðum króna í maí síðastliðnum samanborið við 19,9 milljarða í sama mánuði árið 2016. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1%  Þetta kemur fram í samantekt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar (RSV). Hefur vöxtur í kortaveltu erlendra ferðamanna ekki verið minni frá því að RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu. 

Í krónum talið jókst kortaveltan um 1,4 milljarða milli ára. Segir RSV að meginástæðan fyrir minni vexti í kortaveltu sé vafalítið sterkara gengi íslensku krónunnar. Mestur var samdráttur í gjafa- og minjagripaverslun eða um 18,9%

Mest jókst kortavelta í maí var í flokki farþegaflutninga eða um 22,7% frá sama mánuði í fyrra. Þar verður að taka með í reikninginn að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin í gögnum RSV. Farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri ferðaþjónustu.