*

mánudagur, 12. nóvember 2018
Erlent 9. apríl 2018 09:18

Álfyrirtæki hrynur í verði

Álverð hækkar og gengi bréfa Rusal féllu um helming eftir að Bandaríkin tilkynntu um refsiaðgerðir gegn Rússum.

Ritstjórn
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands og Oleg Deripaska, forstjóri Rusal
european pressphoto agency

Rússneska álfyrirtækið United Co Rusal, stærsta álframleiðslufyrirtæki heims utan Kína, er eitt af 12 rússneskum fyrirtækjum sem verður bannað að eiga viðskipti í Bandaríkjadölum. Er markmið Bandaríkjanna með aðgerðunum að refsa rússneskum stjórnvöldum fyrir afskipti af innanlandsmálum sínum, sem og inngrip í Úkraínu og Sýrlandi.

United Co Rusal, er eitt af 8 fyrirtækjum á listanum sem eru tengd rússneska milljarðamæringnum Oleg Deripaska, sem er nátengdur stjórnvöldum í Rússlandi.

Hefur gengi bréfa fyrirtækisins, sem er skráð í Hong Kong lækkað úr 4,64 hong kong dölum fyrir helgi í 2,32 dali við lokun markaða í landinu, eða um 50,43% á einum viðskiptadegi. Einn Hong Kong dalur jafngildir 12,58 íslenskum krónum.

Fór heildarmarkaðsvirði fyrirtækisins niður í 34,94 milljarða Hong Kong dali, sem jafngildir um 439,55 milljörðum íslenskra króna.
Álferð hefur hækkað á sama tíma um 4%, eða upp í 2.124 dali tonnið, sem kemur til viðbótar við 1,6% hækkun á föstudag.