Matfugl ehf., sem framleiðir alifuglakjöt, hagnaðist um 274,1 milljón króna á síðasta ári. Á sama tíma hagnaðist Síld og fiskur ehf., sem framleiðir svínakjöt, um 130,6 milljónir, en þessi tvö fyrirtæki eru bæði í eigu sömu aðila. Handbært fé frá rekstri Síldar og fisks var 98 milljónir, en 351 milljón króna hjá Matfugli.

Eignir Matfugls námu 882 milljónum króna í lok síðasta árs og var eigið fé fyrirtækisins 277 milljónir króna. Eignir Síldar og fisks námu hins vegar 864 milljónum og var eigið fé þess félags 556 milljónir króna. Arðsemi eigna hjá Matfugli var 31% en hjá Síld og fisk var hún 15%.

Fyrirtækin tvö greiddu eigendum sínum arð upp á samtals 540 milljónir króna á síðasta ári. 137 ársverk voru hjá Matfugli á síðasta ári en 101 ársverk hjá Síld og fisk.